Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 872  —  547. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Í stað orðsins „héraðsnefnd“ í 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 37. gr. laga nr. 108/1988, kem­ur: sýslumaður.

2. gr.

    Í stað orðsins „héraðsnefnd“ í 1. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 37. gr. laga nr. 108/1988, kem­ur: sýslumann.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Jarðanefndir sem skipaðar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara skulu starfa út skipun­artíma sinn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að breyta ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976, um að héraðsnefndir tilnefni fulltrúa í jarðanefndir.
    Samkvæmt 4. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, skal landbúnaðarráðherra skipa jarðanefnd í hverri sýslu til fjögurra ára í senn en jarðanefndir eru skipaðar tveimur fulltrúum tilnefndum af búnaðarsambandi viðkomandi sýslu og einum fulltrúa tilnefndum af héraðsnefnd. Héraðs­nefndir hafa hingað til verið eins konar samstarfsvettvangur sveitarfélaga og starfað á grund­velli 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, sbr. nú 81. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Á liðnum árum hefur héraðsnefndum farið fækkandi vegna sameiningar og fækkunar sveitar­félaga en einnig hefur verkefnum héraðsnefnda fækkað. Er nú svo komið að á nokkrum land­svæðum starfa ekki héraðsnefndir lengur. Sem dæmi má nefna að í Norður- og Vestur-Ísa­fjarðarsýslum eru engar héraðsnefndir starfandi en síðasta héraðsnefnd þar var lögð niður 1. júní 1996. Eftir að umboð síðustu jarðanefnda í Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslum runnu út á árinu 1997 hefur landbúnaðarráðherra ekki verið unnt að skipa þar aðrar jarðanefndir þar sem tilnefningar liggja ekki fyrir frá héraðsnefnd. Ljóst þykir að önnur héraðsnefnd muni ekki verða skipuð fyrir sveitarfélög í Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslum. Einnig er fyrirsjá­anlegt að sama staða komi upp í fleiri sýslum á næstunni þar sem sveitarfélög hafa verið sameinuð, t.d. í Skagafirði.
    Jarðanefndir hafa mörg og mikilvæg hlutverk samkvæmt ábúðarlögum, nr. 64/1976, og jarðalögum, nr. 65/1976. T.d. þurfa jarðanefndir að samþykkja leigu, sölu og aðrar ráðstaf­anir jarða, lausn jarða úr landbúnaðarnotum, landskipti, sameiningu jarða, lausn jarða úr óðalsböndum, innlausnir jarðarhluta, endurbyggingu eyðijarða og stofnun nýrra lögbýla og fé­lagsbúa. Einnig hafa jarðanefndir það hlutverk að gefa ábúendum á ríkisjörðum meðmæli með því að kaupa ábýlisjarðir sínar, að taka ákvarðanir um jarðarafgjöld ef samkomulag næst ekki milli landeiganda og leigutaka o.fl.
    Samkvæmt framanrituðu þykir nauðsynlegt að breyta ákvæði 4. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um að héraðsnefndir tilnefni fulltrúa í jarðanefndir. Með frumvarpi þessu er lagt til að sýslumenn taki við því hlutverki af héraðsnefndum að tilnefna fulltrúa í jarðanefndir.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sýslumaður tilnefni einn fulltrúa af þremur í jarðanefnd. Ákvæði 19. gr. laganna sem kveður á um að jarðanefnd skuli ákveða aðsetursstað sinn í sam­ráði við héraðsnefnd er einnig breytt á samsvarandi hátt, sbr. 2. gr. Sýslumenn starfa á sýslu­grundvelli eins og jarðanefndir og eru starfandi í öllum sýslum. Liggur því beinast við að þeir taki við þessu hlutverki af héraðsnefndum.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum,
nr. 65/1976, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að sýslumenn taki við því hlutverki af héraðsnefndum að tilnefna fulltrúa í jarðanefndir.
    Að því séð verður hefur frumvarpið ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs verði það að lögum.